Mán - Fös: 8:00 - 16:00
Lokað um helgar
Nethylur 2B,110 Reykjavík
568-1245

FRÉTTIR

Hver er vátryggjandinn.

Þann 26. mars 2024 féll í Héraðsdómi Reykjaness dómur í máli nr. E-1058/2023: A gegn Tryggingamiðlun Íslands ehf. og Lloyd´s Insurance Company S. A.  Stefnandi, sem starfaði sjálfstætt sem skilagerðarmaður hafði tekið svokallaða starfsörorkutryggingu hjá Tryggingamiðlun Íslands ehf. (TMÍ) og Lloyd´s Insurance Company S.A. Var efni tryggingarinnar, að yrði stefnandi óvinnufær að starfa sem skilagerðarmaður ætti hann rétt á ákveðinni bótafjárhæð. Stefnandi slasaðist, þann 18. mars 2021, er hann féll úr stiga í vinnu sinni. Varð stefnandi fyrir áverka á vinstri öxl og hálsi og var ófær um að vinna uppfyrir sig með höndunum og gat því ekki starfað sem skilagerðarmaður. Tilkynnti stefnandi tjón sitt til TMÍ.  Fljótlega tilkynnti TMÍ,  að AXIS Speciality Europe SE neitað bótum. Stefnandi kannaðist ekki við að hafa tekið tryggingu hjá AXIS.

Byggði höfnunin aðallega á, að ekki hafi verið um ræða slys, þe. fallið úr stiganum hefði orðið vegna innri orsaka  og  síðan, að stefnandi hafi ekki gefið réttar upplýsingar um heilsufar sitt við töku tryggingarinnar, en stefnandi hafði þá átt við veikleika að stríða í baki  langan tíma og upplýsti um það við töku tryggingarinnar og gaf leyfi til að vátryggjandi gæti athugað sjúkraskrá hans aftur í tímann, varðandi heilsufar hans.   

Stefnandi kærði höfnun Lloyd´s og Axis  til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, sem féllst á bótaskyldu hinn erlendu félaga, sem þrátt fyrir úrskurðinn neituðu bótum.  Þá stefndi stefnandi TMÍ og Lloyd´s til greiðslu bótanna og byggði sem fyrr á, að vátryggjandi hefði sönnunarbyrði fyrir, að slysið hefði orðið af innri orsökum og einnig um, að stefnandi hefði ekki með nægilega skýrum hætti upplýst um heilsufar sitt, fyrir töku tryggingarinnar. Fallist var á dómkröfur stefnanda.

Mál þetta sýnir,  hvað þeir sem kaupa erlendar vátryggingar  í gegnum svokallað vátryggingamiðlara hér á landi búa við laka réttarstöðu, en ekkert eftirlit virðist vera viðhaft að hálfu vátryggingaeftirlits Seðlabanka Íslands, með starfsemi þessarra aðila, sem geta því hagað sér eins og þeim sýnist og bjóða gull og græna skóga í vátryggingamálum.

Í máli þessu var TMÍ einnig stefnt til greiðslu bótanna, en með því fengust frekari upplýsingar um trygginguna, sem ekki höfðu verið lagðar fram, og þá samninga, sem gangi höfðu verið um trygginguna, sem höfðu heldur ekki verið lagðir fram.  Má segja að vegna þess hafi málið unnist.

Vefslóð á dóm Héraðsdóms Reykjaness  í málinu:

https://www.heradsdomstolar.is/default.aspx?pageid=347c3bb1-8926-11e5-80c6-005056bc6a40&id=979b307c-1936-469b-a9a7-e993ac12592a