Mán - Fös: 8:00 - 16:00
Lokað um helgar
Nethylur 2B,110 Reykjavík
568-1245

FRÉTTIR

ATVIKALÝSING VINNUVEITANDA TIL OPINBERRA AÐILA LÖGÐ TIL GRUNDVALLAR

Þann 10. nóvember sl. lá fyrir dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli umbjóðanda Lögmanna Árbæ slf.  gegn Sjóvá Almennum tryggingum hf.,  sbr. héraðsdómsmálið nr. 3064/2023.  Þar komst fjölskipaður dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, þeirri niðurstöðu, að Sjóvá-Almennar tryggingar hf., bæri skaðabótaábyrgð sem vátryggingjandi fyrrum vinnuveitanda tjónþola, vegna vinnuslyss tjónþola í nóvember 2021.  Kaus hið stefnda tryggingarfélag að una dómi héraðsdóms.

Í málinu greindi aðilum á hvort að tjónþoli ætti rétt á bótum úr frjálsri ábyrgðartryggingu fyrrum vinnuveitanda tjónþola, vegna þess líkamstjóns sem tjónþola varð fyrir í slysi á vinnustað sínum. Nánari tildrög  málsins  voru  þau,  að  tjónþoli  varð  fyrir  slysi, að morgni 21.  nóvember  2021,   í starfi sínu við afgreiðslu í útivistarverslun fyrrum vinnuveitanda síns sem staðsett er í gestamiðstöð þjóðgarðsins á Þingvöllum. Tildrög slyssins voru þau, að snemma að morgni umræddan dag hafi tjónþoli ætlað að sýna  hópi viðskiptavina   hvar   útisalerni   væri   á   svæðinu, en á þeim tíma hafi salerni innandyra ekki verið opin viðskiptavinum. Er tjónþoli hafi gengið út um út  um  dyr gestamiðstöðvarinnar og síðan niður aflíðandi ramp. Á leið sinni niður rampinn hafi stefnandi skrikað fótur og hún fallið aftur fyrir sig,  með þeim afleiðingum að höfuð hennar, hnakki, bak og hendur hafi skollið af miklu afli á rampinn.

Í málinu deildu aðilar m.a. um hvernig nákvæmlega hafi verið umhorfs á slysstað og hvort að hálkuvörnum hafi verið sinnt með forsvaranlegum hætti af hálfu vinnuveitanda tjónþola. Við úrlausn á þeim ágreiningi, lagði dómurinn réttilega til grundvallar, frásögn tjónþola sem átti sér stoð í upphaflegum tilkynningum fyrrum vinnuveitanda tjónþola til Vinnueftirlits ríkisins og Sjúkratrygginga Íslands. 

Er niðurstaða dómsins skýr, að leggja verði til grundvallar þær málsatvikslýsingar sem stafi frá vinnuveitanda tjónþola til opinberra aðila, nema hið gagnstæða sannist. Samræmist sú túlkun lögmæltum skyldum atvinnurekanda  og komi einnig í veg fyrir, að vinnuveitandi komi með hagfelldar eftiráskýringar, eftir að krafa um skaðabætur frá tjónþola liggur fyrir. Fyrir framangreindar sakir, er ljóst að nauðsynlegt sé fyrir alla vinnuveitendur þegar slys eru tilkynnt til Sjúkratrygginga Íslands og Vinnueftirlitsins, að slíkar tilkynningar séu nákvæmar og sannleikanum samkvæmar. Slíkt eigi að koma í veg fyrir óvissu sem kann að myndast um orsakir og tildrögum slyss, öllum til hagsbóta.

Hér má sjá dóminn:  https://www.heradsdomstolar.is/default.aspx?pageid=347c3bb1-8926-11e5-80c6-005056bc6a40&id=25804df5-ab77-4b03-8af7-f3b11015114e