Mán - Fös: 8:00 - 16:00
Lokað um helgar
Nethylur 2B,110 Reykjavík
568-1245

FRÉTTIR

Siggi gekk á súlu

Þann 4. apríl sl., hafnaði Hæstiréttur Íslands beiðni fyrirtækisins Margt Smátt ehf., til að áfrýja dómi Landsréttar frá 10. febrúar 2023 í máli nr. 730/2021, þar sem Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu, að félagið væri skaðabótaskylt fyrir því líkamstjóni sem fyrrum starfsmaður fyrirtækisins varð fyrir í vinnuslysi í febrúar 2019.

Atvik málsins voru í stuttu máli, að tjónþoli starfaði sem sölumaður hjá áðurnefndu fyrirtæki. Einn morgun í febrúar er tjónþoli var að taka móti viðskiptavini fyrirtækisins í afgreiðslu-/móttökusal fyrirtækisins, varð tjónþoli fyrir því óláni, að ganga á steinsteypta burðarsúlu sem staðsett var í miðjum afgreiðslusal/verslun fyrirtækisins. Við það hlaut tjónþoli þungt höfuðhögg, með þeim afleiðingum, að tjónþoli býr nú við varanleg einkenni frá hálsi og höfði. 

Eftir að hafa þegið bætur úr kjarasamningsbundinni slysatryggingu vinnuveitanda úr hendi Vátryggingafélagi Íslands hf. (VÍS),  áréttaði tjónþoli afstöðu sína, að hann ætti rétt til greiðslu frekari bóta úr hendi VÍS og Margt Smátt ehf., á þeirri forsendu, að slys hans væri að rekja til óforsvaranlegs aðbúnaðar á vinnustað, sem fyrrum vinnuveitandi hans ætti sök á. Var kröfu tjónþola um frekari bætur hafnað.

Úr varð að tjónþoli höfðaði mál á hendur fyrrum vinnuveitanda sínum, að undangegnum úrskurði úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum, þar sem öllum kröfum tjónþola um frekari bætur var hafnað.

Í meginatriðum byggði málatilbúnaður tjónþola á, að hann  hafi ekki getað séð súluna við þær aðstæður, er voru á vinnustað hans  er hann slasaðist.  Hafi staðsetning súlunnar, í því umhverfi sem súlan var í, skapað þá hættu, að erfitt hafi verið  að sjá súluna á þeirri umferðarleið, sem tjónþoli var á við vinnu sína, er hann slasaðist.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem og dómi Landsréttar  var  fullum fetum tekið undir framangreindan málatilbúnað tjónþola. Ályktaði Landsréttur sem svo, að   vegna  staðsetningar  súlunnar,  þess hversu mjó hún væri og vegna litar hennar félli hún inn í umhverfi sitt, þannig að hún gæti  auðveldlega  dulist  þeim  sem  leið  ættu  um  rýmið. Sérstaklega  frá  því sjónarhorni sem horfði við tjónþola í umrætt sinn.

Að mati Landsrétti hefði framangreindur aðbúnaður skapað fyrirsjáanlega hættu á slysum, sem fyrrum vinnuveitandi tjónþoli hefði án mikillar fyrirhafnar getað verulega dregið úr eða komið í veg fyrir með almennum varúðarráðstöfunum. Fallist var á óskerta skaðabótaskyldu Margt Smátt ehf.  

Vefslóð á dóm Landsréttar: https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=f50c742a-b705-4c58-b20c-35f2a869a65c&verdictid=e936b766-84e3-44f3-ba1b-39f797efe9e5