Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra
Sölvhólsgötu 7, Reykjavík.
Efni: Hlutfallsregla miskataflna örorkunefndar frá júní 2019. Starfshættir örorkunefndar. Ráðherraábyrgð.
Í 2. 3. og 4. málsgreinum 10. greinar skaðabótalaga er kveðið á um örorkunefnd og í greinargerð með 2. mgr. 4. greinar laganna. Í reglugerð nr. 335/1993 er kveðið á um starfshætti örorkunefndar.
Í 3. mgr. 10. greinar skaðabótalaga segir að örorkunefnd skuli semja töflur um um miskastig.
Með 9. grein laga nr. 37/1999 var gerð sú breyting á 10. grein skaðabótalaga, að álit örorkunefndar var ekki lengur fyrsti áfangi við ákvörðun miska og varanlegrar örorku á líkamstjóni vegna slysa. Varð nú heimilt að biðja um möt á afleiðingum slysa utanréttar og án þess að leita til nefndarinnar.
Í matsgerðum sjálfstætt starfandi lækna við að meta miska vegna líkamstjóns fór að bera á því á árunum eftir 1999, þe. eftir breytinguna sem gerð var með 9. grein laga nr. 37/1999, að bandarísku miskatöflurnar væru notaðar við mat á miska, með vísan til þess, að samkvæmt íslensku miskatöfunum er vísað í þær töflur, sem helsta hliðsjónarrit örorkunefndar við samningu íslensku miskataflanna. Hafa margir íslenskir læknar sem starfa hér á landi við örorkumöt menntað sig í Bandaríkjunum í bandarísku miskatöflunum og titla sig „CIME“ sem staðfestir námskeið hjá bandarísku nefndinni og kunnáttu læknanna í notkun þessarra taflna.
Með dómi Hæstaréttar Íslands, frá 14.3. 2013, í málinu nr. 608/2012, er kveðið á um, að bannað sé að nota bandarísku miskatöflunar við mat á miska samkvæmt íslensku skaðabótalögunum, en svo segir um þetta í dómnum:
„Í 3. mgr. 10. greinar skaðabótalaga er kveðið á um að eitt hinna lögbundnu hlutverka örorkunefndar sé að semja töflur um miskastig. Reglur skaðabótalaga um varanlegan miska eiga sér fyrirmynd í dönskum lagareglum um sama efni. Miskatafla örorkunefndar hefur í stórum dráttum svarað til danskrar töflu um mat á varanlegum miska, sem þó hefur í ýmsum efnum verið ítarlegri. Í framkvæmd hefur verið litið til mats á varanlegum miska samkvæmt dönsku miskatöflunni þegar hinni íslensku sleppir. Þessi framkvæmd hefur stoð í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til skaðabótalaga þegar það var lagt fram á Alþingi. Á hinn bóginn liggur ekki fyrir að unnt sé að styðjast við þá bandarísku töflu um mat á varanlegri örorku (permanent impairment) sem dómkvaddir menn vísa til í matsgerð sinni, enda ekkert upplýst um hvort sömu forsendur liggja henni til grundvallar og miskatöflu örorkunefndar. Tilvísun til hinnar bandarísku örorkutöflu í matsgerðinni verður, þrátt fyrir vísan matsmanna til þess að niðurstaða þeirra sé fengin með hliðsjón af miskatöflu örorkunefndar, ekki skilin á annan veg en þann að fyrrnefnda taflan hafi haft áhrif á matið. Þegar af þessari ástæðu er ekki hægt að byggja á matsgerð dómkvaddra matsmanna við mat á sönnun um varanlegan miska áfrýjanda vegna líkamstjónsins.“
Niðurstaða Hæstaréttar Íslands í ofangreindum dómi er, að það hafi ekki réttarlega þýðingu að nota bandarísku miskatöflurnar til hliðsjónar við sönnun á miska, samkvæmt 4. grein íslensku skaðabótalaganna. Ekki megi fara eftir bandarísku miskatöflunum.
Þrátt fyrir þessa skýru afstöðu æðsta dómstóls þjóðarinnar leyfði örorkunefnd sér í júní síðast liðnum, að gefa út nýja miskastöflu, með þeim breytingum, að við mat á miska samkvæmt 4. grein skaðabótalaga skuli styðjast við bandarísku miskatöflurnar.
Nú er VIII. kafli íslensku miskatöflunnar hlutfallsregla bandarísku miskatöflunnar. Hefur það þá afleiðingu að miski vegna líkamstjóna, þegar tjónþolar verða fyrir svokölluðum fjöláverkum, þe. áverkum á fleiri en einn líkamshluta (líffæri) í sama slysinu, að metinn miski vegna afleiðinga áverkanna í flest öllum tilvikum verður mun lægri, þegar hlutfallsreglunni er beitt, en án hennar.
Þá er þessi aðferðafræði ekki í samræmi við skýrar leiðbeiningar með dönsku miskatöflunum, sem farið hefur verið eftir hér á landi við mat á miska. Þar er höfuðreglan, að verði líkamstjón á aðskildum líkamshlutum, til dæmis á hálsi og á fæti í sama slysi, að miskamatið á hálsinum er óháð miskamatinu á fætinum. Sé bandarísku hlutfallsreglunni hins vegar beitt lækkar metinn miski á fætinum miskamatið vegna hálsáverkans og miskamatið á hálsinum miskamatið vegna fótaráverkans og bætur fyrir líkamstjón vegna slysa lækka verulega, þar sem lækkun á miska lækkar samkvæmt venju einnig mat á varanlegri örorku.
Hér er því haldið fram, að hlutfallsregla örorkunefndar gangi í berhögg við lög og sé brot á lögmætisreglunni, þeim réttarheimildum og þeirri réttarvenju sem sem gilt hafi við mat á varanlegu líkamstjóni hingað til hér á landi, en í því efni verður að hafa í huga, að réttindi manna er lúta að líkama og heilsu njóta stjórnskiplegrar réttarverndar.
Hæstiréttur Íslands hefur svarað því í málinu nr. 13/2004, frá 12. 6. 2014, að örorkunefnd sé stjórnvald í merkingu 2. mgr. 1. greinar stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Spurningi er því sú, hver hafi verið valdbærni örorkunefndar til að setja téða hlutfallsreglu.
Þegar horft er til settra laga um örorkunefnd, svo sem 3. mgr. 10. greinar skaðabótalaga segir þar aðeins, að örorkunefnd skuli semja töflur um miskastig. Í reglugerð um starfshætti nefndarinnar, nr. 335/1993, er ekki kveðið nánar á um þessi atriði. En af þessu má ráða að staða nefndarinnar gagnvart yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildum ráðherra er ekki ótvíræð, til að taka slíka ákvörðun andstæða lögum, sem hlutfallsreglan er.
Í ljósi þess að ákvarðanir stjórnvalda verði ávalt að hafa heimild í settum lögum gæti komið til ábyrgðar ráðherra, skerist ráðherra ekki í leikinn og afnemi hlutfallsregluna, en með afskiptaleysi um málið væri ráðherra að viðurkenna valdaframsal sem skert gæti réttaröryggi borgaranna en frekar.
Leysir það ráðherra hins vegar ekki undan ábyrgð, þar sem efni stjórnvaldsákvarðanna verður á öllum tímum að vera bæði rétt og lögmætt. Mætti því segja að með afskiptaleysinu væri svokölluð öryggisregla stjórnsýsluréttarins brotin, sem er ein hin æðasta regla stjórnsýsluréttarins til að réttinda borgaranna verði gætt.
Virðingarfyllst,
Lögmenn Árbæ,
Steingrímur Þormóðsson,
Þormóður Skorri Steingrímsson
Fjölnir Vilhjálmsson