Mán - Fös: 8:00 - 16:00
Lokað um helgar
Nethylur 2B,110 Reykjavík
568-1245

FRÉTTIR

Fyrning

Í málum þar sem skuldari ber fyrir sig að krafa á hendur honum sé fyrnd, reynir yfileitt á hvert sé „uppaf fyrningarfrests“. Kröfur hafa mislangan líftíma og skiptir þá máli frá hvaða tímapunkti  ber að telja. Vegna þess langa tíma  sem Sjúkratryggingar Íslands taka til að afgreiða þau mál, vegna líkamstjóns vegna læknamistaka sem þangað er skotið,  hafa tjónþolar þegar málum er loks lokið þar á bæ oft talið,  að vonlaust sé að halda áfram með málin. Á þetta reyndi í dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 53/2016 frá 10. 11. 2016, en svo segir í  fororðum Hæstaréttar: 

„Ágreiningur aðila laut að því hvort krafa A á hendur Í, til greiðslu bóta vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir í fæðingu í janúar 1996, hefði verið fyrnd þegar málið var höfðað í desember 2014. Fyrir lá að ári eftir fæðingu A tilkynnti móðir hennar atburðinn til Tryggingastofnunar ríkisins og rúmum fimmtán árum síðar, í febrúar 2012, tóku Sjúkratryggingar Íslands ákvörðun um bætur til handa A úr sjúklingatryggingu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þegar eftir fæðingu A hefðu lögráðamenn hennar átt tveggja kosta völ vildu þeir fyrir hennar hönd leita réttar af því tilefni. Annars vegar að höfða mál til heimtu skaðabóta samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar og hins vegar að beina bótakröfu A í farveg samkvæmt þágildandi lögum nr. 117/1993 um almannatryggingar, svo sem gert hafði verið, en nú giltu í þeim efnum ákvæði laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Með vísan til 2. töluliðar 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda var talið að krafa A, sem hún kynni að eiga á hendur Í samkvæmt reglum skaðabótaréttar, fyrndist á 10 árum og teldist fyrningarfrestur hennar frá fæðingardegi A, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna. Á hinn bóginn var litið svo á að með setningu laga nr. 117/1993 og síðar laga nr. 111/2000 hefði verið stefnt að því að veita sjúklingum sem yrðu fyrir áföllum í tengslum við læknismeðferð víðtækari bótarétt en þeir ættu samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar og gera þeim jafnframt auðveldara að ná fram rétti sínum. Með hliðsjón af því og þar sem úrlausn um rétt A til sjúklingatryggingar hefði á stjórnsýslustigi borið undir Tryggingastofnun ríkisins og síðar Sjúkratryggingar Íslands var með lögjöfnun frá 1. og 11. gr. laga nr. 14/1905 fallist á með A að fyrning fjárkröfu hennar gagnvart Í hefði verið rofin með tilkynningu móður hennar til Tryggingastofnunar ríkisins í janúar 1997. Af þeirri niðurstöðu leiddi að nýr fyrningarfrestur kröfunnar hefði ekki getað byrjað að líða fyrr en ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands lá fyrir í febrúar 2012. Samkvæmt framansögðu var talið að krafa A á hendur Í hefði ekki verið fallin niður fyrir fyrningu þegar málið var höfðað desember 2014.“