Með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 599/2013 frá 6. 2. 2014, var staðfest að H sem fékk hjartaáfall í febrúar 2010 og var með sjúkdómatryggingu hjá L ætti rétt á bótum úr tryggingunni. L hafði ekki fallist á bótaskyldu af þeirri ástæðu að hjartaáfallið, eins og því væri lýst í læknisgögnum félli ekki nákvæmlega undir þá lýsingu á hjartaáfalli, sem tilgreint var í skilmálum félagsins. H kærði afstöðu félagsins til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, sem staðfesti að H ætti ekki rétt á bótum.
H stefndi málinu og byggði aðallega á, að vátryggingaratburður hefði orðið í skilningi laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga og L hefði því alla sönnunarbyrði í málinu, samkvæmt grundvallarreglum vátryggingaréttar. Í greinargerði L í héraði byggði L einnig á, að H hefði leynt L upplýsingum um heilsufar sitt, er hann tók trygginguna og hélt því jafnframt fram, eins og áður, að hjartasjúkdómur H uppfyllti ekki skilyrði skilmálanna og krafðist sýknu.
L var í héraði dæmt til að greiða bætur til H, samkvæmt sjúkdómatryggingunni með þeim rökstuðningi, að öll skilyrði væru fyrir því að vátryggingaratburður hefði orðið, einnig í skilningi vátryggingarskilmálanna. Þá var ekki talið að H hefði leynt L upplýsingum um heilsfufar sitt fyrir töku tryggingarinnar, eins L byggði á. Var niðurstaða héraðsdóms staðfest í Hæstarétti.
Mál þetta sýnir að tryggingafélög taka oft á tíðum ekki með jákvæðum hætti á kröfum vátryggingartaka um bætur vegna vátryggingaratburðar og að niðurstaða úrskurðarnefndar í vátryggingamalum er oft á tíðum haldlítil. Það virðist því kosta bæði kjark og úthald að sækja slík mál á hendur tryggingafélögum. Er ljóst að oft liggja tjónþolar óbættir hjá garði í slíkum málum og láta ekki reyna á rétt sinn.