Mán - Fös: 8:00 - 16:00
Lokað um helgar
Nethylur 2B,110 Reykjavík
568-1245

FRÉTTIR

Sönnunarbyrði

F kól á fingrum beggja handa  í vinnu hjá L í frystilest,  þann 18. 3. 2010.  F stefndi málinu þann 4. febrúar 2011. Var L sýknað í héraði. Í Hæstarétti (hrd. nr. 472/2011) var fallist á bótaskyldu L. Í  málinu reyndi meðal annars á 23. grein a skaðabótalaga, sbr. 1. gr. laga nr. 124/2009.  Segir svo í dómi Hæstaréttar: „Kemur þá til skoðunar hvort áfrýjandi hafi átt þátt í að hann varð fyrir líkamstjóni greint sinn. Í 1. mgr. 23. gr. a skaðabótalaga segir að verði starfsmaður fyrir líkamstjóni í starfi sínu skerðist ekki réttur hans til skaðabóta vegna meðábyrgðar hans, nema hann hafi af stórkostlegu gáleysi eða ásetningi átt þátt í því að tjónsatburður varð. Hvílir sönnunarbyrði um það á stefnda og hefur sú sönnun ekki tekist. Verður fallist á kröfu áfrýjanda um viðurkenningu  á skaðabótaskyldu stefnda vegna líkamstjóns þess er áfrýjandi hlaut 18. mars 2010.“ 

Sönnunarstaða starfsmanna sem slasast í vinnu er erfið og kemur einatt niður á þeim, er til dómsmála kemur. Með tilkomu  laga nr. 124/2009 var tilgangur löggjafans sá, að létta sönnunarstöðu starfsmanna sem verða fyrir líkamstjóni í vinnu.  Í  ofangreindu máli hélt lögmaður F því fram, að um væri að ræða hlutlæga ábyrgð vinnuveitanda. Ekki var fallist á það af Hæstarétti.  Hins vegar má halda því fram,  eftir tilkomu laga nr. 124/2009, að um sé að  ræða svokallaða stranga sakarábyrgð vinnuveitanda,  þe. að lög nr. 124/2009 feli alla vega í sér herta sakarreglu.   Ættu lögmenn sem með slík mál fara að láta frekar á það reyna fyrir dómi, í þeim tilgangi að bæta réttarstöðu starfsmanna sem slasast í vinnu.