Sá sem slasast af völdum skráningarskylds ökutækis á alltaf rétt á bótum, ef slysið stafar af akstri (notkun) ökutækisins. Tjónþoli getur þá átt rétt á, sjúkrakostnaði, öðru fjártjóni, þjáningabótum, miskabótum og bótum fyrir varanlega örorku. Skyldutryggingar ökutækis gilda fyrir farþega, ökumann og gangandi og hjólandi vegfarendur, sem fyrir tjóni verða. Ekki er skilyrði að tjónþoli þurfi að vera í rétti til að eiga kröfu til skaðabóta (ökumanns- og farþegatrygging). Farþegi með drukknum ökumanni á rétt á bótum. Tjónþoli sem sannanlega slasast af notkun ökutækis á rétt á bótum, þó ökutækið sé ekki tryggt og þó ekki verði upplýst hvert ökutækið er. Um þetta réttarsvið gilda: XIII. kafli umferðarlaga nr. 50/1987, reglugerð nr. 424/2004 um lögmæltar ökutækjatryggingar og ökutækjatilskipanir EB nr. 1, 2, 3, 4, og 5 (72/166/EBE, 84/5/EBE, 90/232/EBE, 2000/26/EB og 2005/14/EB).
Uppgjör vegna umferðaslysa fer fram, samkvæmt l. nr. 50/1993 um skaðabætur. Hluti bótanna er staðlaður, eins og þjáningabætur, sem miðast við þann tíma m.a., sem viðkomandi telst vera veikur vegna slysaáverka. Miskabætur miða við skerðingu á lífsgæðum tjónþola vegna líkamstjónsins. Bætur fyrir varanlega örorku eru bætur fyrir framtíðartekjutap vegna þeirrar skerðingar á aflahæfi, sem líkamsáverkarnir hafa í för með sér og reiknast út frá aldri þess slasaða og tekjum hans sl. þrjú ár fyrir slysið. Miðað er við ákveðin lágmarkslaun í þeim tilfellum, sem tjónþoli hefur verið tekjulítill sl. þrjú ár fyrir slys. Skerðing á getu til heimilisstarfa er í sumum tilvikum metin sérstaklega. Hafi tjónþoli unnið fyrir tekjum er hann slasast, á hann rétt á greiðslum fyrir tímabundið tekjutap, að loknu því tímabili sem vinnuveitandi greiðir, þar til tjónþoli verður vinnufær. Þá greiðir tryggingafélag útlagðan kostnað vegna læknisathugana/ læknismeðferðar (læknisvottorða), lyfja og sjúkraþjálfunar. Tryggingarfélögin greiða einnig kostnað lögmanns vegna málsins. Tjónþoli, sem leitar aðstoðar Lögmanna Árbæ, þarf ekki að leggja út neina fjármuni sjálfur vegna læknisvottorða og annarrar gagnaöflunar vegna málsins, svo sem fyrir matskostnað fyrstu matsgerðar. Uppgjör vegna lögmannsaðstoðar fer ekki fram fyrr en við lokauppgjör frá tryggingarfélagi. Samkvæmt 5. grein skaðabótalaga á tjónþoli rétt á, að líkamstjón hans samkvæmt skaðabótalögum verði metið er batahvörfum (stöðugleikapunkti) er náð, sem er yfirleitt 3 til 6 mánuðir eftir tjónsatburð. Ber þá að meta allan vafa um endurhæfingu í hag tjónþola.
Til leiðbeiningar
Áríðandi er að sá, sem slasast í umferðaróhappi leiti læknis, eins fljótt og verða má eftir slysið til að afla sér sönnunar á, hvaða áverkum hann hafi orðið fyrir í slysinu. Mikilvægt er að tjónþoli tilkynni slysið sem fyrst til þess tryggingafélags, er ábyrgðina ber, sem fer eftir bótakafla umferðarlaga. Ef vafi er á, hvar bótaábyrgð liggur, er nauðsynlegt að leita aðstoðar lögmanns. Einnig er mikilvægt að fara fram á við lögreglu, að gerð verði lögregluskýrsla vegna atburðarins, hafi lögregla ekki komið að slysaatburði eða gera ítarlega tjónstilkynningu, þar sem báðir bifreiðarstjórar, ef um árekstur er að ræða, rita undir viðkomandi tilkynningu. Ástæða þess, að tjónþola ber að tryggja, að sem flest gögn séu til um slysið, er að sá, er fer fram á greiðslu slysabóta, ber sönnunarbyrði um, að sá áverki sem hann krefst bóta fyrir sé afleiðing viðkomandi tjónsatburðar.
Af hverju að leita lögmannsaðstoðar
Rekstur bifreiðartrygginga tryggingafélaga gengur út að fá greidd iðgjöld og að greiða ekki hærri bætur en félögunum ber lögum samkvæmt, að mati félaganna, þannig að innheimt iðgjöld dekki þau tjón sem verða á viðkomandi iðgjaldatímabili. Hinum ágætu starfsmönnum tryggingafélaga ber þannig að gæta hagsmuna félaganna, með sjálfstæðu mati á framkomnum gögnum. Það gefur auga leið, að hagsmunir tryggingafélaganna af greiðslu bóta og hagsmunir tjónþolanna af því að fá fullar bætur geta skarast. Á þessu flókna réttarsviði er því nauðsynlegt fyrir tjónþola (fórnarlömb umferðarslysa) að ráða sér lögmann, sem leitast við að gæta réttar þeirra af fremsta megni. Ef tjónþoli leitar til Lögmanna Árbæ kappkostum við að afla gagna á eins fljótlegan og öruggan hátt og fært er, hjá óháðum og færum sérfræðingum og rekum málið með hagsmuni tjónþola að leiðarljósi fyrst og fremst. Við höfum tildæmis ekki fallist á svokölluð “tveggja lækna möt”, þar sem lögmaður tjónþola tilnefnir annan lækninn og viðkomandi tryggingafélag hinn, til mats á áverkunum. Teljum við að í slíkum tilvikum sé hætta á, að matið gangi út á ákveðið samkomulag milli læknanna, þar sem hagsmunir tjónþolans geti verið fyrir borð bornir. Við leitum því beint til óháðra sérfræðimatsmanna, eins og heimild er til í 10. grein skaðabótalaga nr. 50/1993, sem fyrst eftir að batahörfum er náð. Við leggjum áherslu á, að fyrsta mat sé unnið af óháðum sérfræðingum, lækni og lögfræðingi, á grundvelli gagna, sem við öflum sjálfir fyrir tjónþolann. Það er reynsla okkar, að í mörgum tilvikum geti orðið umdeilt, hverjar afleiðingar umferðarslysa eru, hvað varðar miska og varanlega örorku og að endanleg úrslit ráðist oftar enn ekki af því, hvernig staðið hafi verið að því mati sem fyrst er gert.
Fyrning
Almenna reglan er sú að bótaréttur getur fyrnst á fjórum árum eftir batahvörf (stöðugleikapunkt), en í síðasta lagi tíu árum eftir slysdag.
Hagsmunatengsl Lögmanna Árbæ slf. við tryggingarfélög eru engin.