Mán - Fös: 8:00 - 16:00
Lokað um helgar
Nethylur 2B,110 Reykjavík
568-1245

Það er ófrávíkjanleg regla í  skaðabótarétti (líkamstjónarétti), að sá sem sækir bætur á hendur tjónvaldi (vátryggingafélagi) beri  sönnunarbyrði, sem tjónþoli, um hvaða líkamstjóni hann hafi orðið fyrir í bótaskyldu slysi, til dæmis  þegar um umferðarslys er að ræða. Og þó tjónþolinn eigi, samkvæmt grundvallarréttindum,  að hafa forræði á sönnunarfærslu vegna sönnunarbyrði sinnar, svo sem að ráða því, að líkamtjónið verði metið af hlutlausum matsmönnum, hefur hann það ekki lengur, eins og framkvæmdin (praksísinn) er hér á landi í dag og hefur verið undanfarin ár.

Með 10. grein skaðabótalaga, sem sett voru þann 19. maí 1993, var báðum aðilum líkamstjónamáls heimilt að leita til örorkunefndar til ákvörðunar á miska og varanlegrar örorku vegna afleiðinga slysa. Varð það fljótlega meginreglan, að tjónþolar í líkamstjónamálum skutu málum sínum einhliða til örorkunefndar.  En þrátt fyrir, að hinir vönduðu læknar nefndarinnar sinntu störfum sínum vel,  mynduðust brátt langir biðlistar hjá nefndinni og mál tóku langan tíma, enda hefur nefndin alltaf verið fjársvelt og einungis haft þeim málskostsgjöldum úr að spila, sem þeir sem skjóta málum sínum þangað, er gert að greiða til nefndarinnar.

Úr varð á þessum tíma, vegna þessarra tafa, að aðilar líkamstjónamála, þ.e. tjónþoli og viðkomandi vátryggingafélag, báðu sameiginlega um svokölluð tveggjalæknamöt, þar sem vátryggingafélagið valdi annan lækninn en tjónþolinn hinn.  Niðurstaða þessarra matsgerða varð stundum sú,  að læknarnir komust að mismunandi niðurstöðum um afleiðingar slyssins. Var læknir tryggingafélagsins oft  með lægra mat og sýndi þessi framkvæmd mismunandi aðferðafræði hjá læknum og viðhorf  um það, hvernig meta ætti líkamtjón.  Skapaðist af þessu talsverð réttaróvissa, langur biðtími tjónþola eftir bótum og verulegur kostnaður.

Voru   hin sameiginlegu tveggjalæknamöt harðlega gagnrýnd, meðal annars í fjölmiðlaumræðu um þessi mál. Að mati löggjafans gat þetta fyrirkomulega ekki gengið. Með 9. grein laga nr. 37/1999, frá 19. mars 1999, var málum svo skipað, að   örorkunefnd var ekki lengur matsaðili á fyrsta stigi.  Sú grundvallarregla var þó  áfram svo, að báðum aðilum líkamstjónamáls, var heimilað að biðja einhliða um mat á afleiðingum slysa,  með þeim hætti sem  segir   í greinargerð með 9. grein laga nr. 37/1999:

 “Örorkunefnd tók til starfa eftir gildistöku skaðabótalaganna árið 1993. Málum sem skotið er til nefndarinnar hefur stöðugt fjölgað. Vegna málafjöldans hefur álag á nefndina verið mjög mikið og afgreiðslutími mála lengst. Miklu skiptir fyrir málsaðila að enginn ónauðsyn­legur dráttur verði á því að mat á afleiðingum líkamstjóns geti legið fyrir.
 Í því skyni að létta álagi af örorkunefnd er lagt til að 1. mgr. 10. gr. laganna verði breytt þannig að horfið verði frá þeirri meginreglu að örorkunefnd sé matsaðili á fyrsta stigi. Aðalreglan verði sú að málsaðilar afli sjálfir sérfræðilegs álits um örorku- og/eða miskastig og þá læknisfræðilegu þætti sem meta þarf skv. 2. og 3. gr. laganna til þess að ljúka megi bótauppgjöri. Sérfræðilegt mat, sem annar málsaðila aflar, geti tjónþoli eða sá sem krafinn er bóta borið undir örorkunefnd. Með þessu breytist hlutverk örorkunefndar og hún verður fyrst og fremst matsaðili á síðara stigi. Áfram verður það meginhlutverk nefndarinnar að stuðla að því að viðunandi samræmi geti fengist um matsniðurstöður. Ætla má að til hennar verði einkum skotið þeim málum sem eru á einhvern hátt sérstök eða fordæmisskapandi. Sætti annar málsaðila sig ekki við niðurstöðu örorkunefndar getur hann freistað þess að fá henni breytt eða hrundið með því að leita til dómstóla.”

Eftir setningu 9. greinar laga nr. 37/1999 varð það fljótlega svo, að lögmenn tjónþola báðu einhliða um mat á afleiðingum skaðabótaskyldra slysa hjá hlutlausum læknum og lögfræðingum og kröfðu vátryggingafélögin um bætur á grundvelli slíkra matsgerða. Þá brá svo við, að í  flestum tilvikum neituðu vátryggingafélögin bótum á grundvelli slíkra matsgerða, á þeim grundvelli, eins og það er gjarnan  orðað, “að ekki hafi verið haft samráð við tryggingafélgið um val á matsmönnum.”

Fóru sík mál fyrir dómi og dæmdi Hæstiréttur Íslands alla vega í þremur málum vátryggingafélög til greiðslu bóta á grundvelli slíkra einhliða aflaðra matsgerða, þar sem félögin höfðu ekki hnekkt matgerðinni  með áliti örorkunefndar, samanber dóma Hæstaréttar Íslands í málunum nr. 375/2010,  542/2012 og  319/2014.

Þrátt fyrir nefnda dóma halda vátryggingafélögin uppteknum hætti og mótmæla matsbeiðnum, sem tjónþolar biðja  um einhliða, enda þótt  skýr lagaheimild, samkvæmt 9. grein laga nr. 37/1999 standi til slíkra matsbeiðna. Hóta félögin því gjarnan að þau muni ekki greiða matskostnaðinn, enda þótt þeim sé það skylt, samkvæmt grunnreglu 1. mgr. 1. greinar skaðabótalaga.

Mörg undanfarin ár,  frá mars 1999, hafa vátryggingafélögin ráðið málum með þeim hætti, að félögin hafa fengið þá lögmenn, sem gæta hagsmuna tjónþola til að biðja  sameiginlega, með vátryggingafélaginu,   um mat á afleiðingum slysa, þe. lögmaður tjónþola skrifar þá undir matsbeiðnina með  vátryggingafélaginu.  Semur vátryggingafélagið  í þessum tilvikum matsbeiðnina og ræður að verulegu leyti vali á matsmönnum. Eftir að matsgerðin er kláruð, fara þessir  matsmenn með matsgerðina til viðkomandi vátryggingafélags og fá greitt fyrir sína vinnu.  Í yfirgnæfandi tilvikum  veljast sömu matsmenn til þessarra verka  fyrir vátryggingafélögin og þyggja fyrir störf sín verulegar fjárgreiðslur, sem geta numið tugum milljóna ár hvert. Ekki getur því verið um hlutlausa matsmenn að ræða og þeir lögmenn,  sem á þessa framkvæmd fallast,  eru varla að gæta hagsmuna umbjóðanda sinna, en tryggja hins vegar  greiðslu kostnaðarins vegna matsgerðanna,  sem er reyndar verulegur. Er svo í dag, að stærstur hluta þeirra vátryggingabóta vegna líkamstjóna, sem vátryggingafélögin hafa greitt, undanfarin ár, eru byggður á slíkum sameiginlegum utanréttarmötum, þar sem sömu matsmenn, læknar (CIME) og lögfræðingar koma að málum. Er þessi praksís (þvingað samráð) allavega “frávik” frá ákveðnu  lögmæltu viðmiði eða þeim aðferðum sem kveðið er á um í greinargerð með 9. grein laga nr. 37/1999.

Er þetta umhugsunarefni, þar sem ekki er farið að í samræmi við það, sem löggjafinn telur, að best tryggi hagsmuni þeirra,  sem orðið hafa fyrir líkamstjóni í slysum,   eins og  kveðið er á um í   greinargerð með 9. grein laga nr. 37/1999, þar sem segir,  að tjónþoli geti sjálfur aflað mats á líkamstjóni sínu  og ef vátryggingafélagið sættir sig ekki við matsniðurstöðuna, geti félagið leitað álits örorkunefndar, sem er  hlutlaus og óháður matsaðili.

Í þeim tilvikum, þar sem vátryggingafélög hafa ekki sætt sig við matsgerð, sem aflað er einhliða hjá hlutlausum matsmönnum, eru félögin einnig hætt að fara að tilmælum löggjafans í greinargerð með 9. grein laga nr.  37/1999,  um að leita   til örorkunefndar, til að reyna að hnekkja matinu. Í dag biðja vátryggingafélögin hins vegar yfirleitt um mat dómkvaddra matsmanna. Er þá erfitt að fá hlutlausa matsmenn, þar sem þeir matsmenn, sem gefa kost á sér til slíkra starfa fyrir  dómstólunum, hafa flestir starfað að sameiginlegum utanréttarmötum, fyrir vátryggingafélögin, og eru því í raun vanhæfir til starfans, vegna fjárhagslegra tengsla við viðkomandi vátryggingafélag,  eins og fram kemur í dómi Hæstaréttar Íslands í málinu  nr. 223/2008 frá 5. febrúar 2009 og öðrum dómi réttarins, máli  nr.  679/2008 frá 15. janúar 2009.

Staðan í þessum málum í dag,  eins og sagt var hér í upphafi, er því miður, að tjónþolar í líkamstjónamálum hér á landi  hafa ekki forræði á þeirri sönnunarfærslu, sem þeir eiga rétt á. Af hverju er það  látið viðgangast af þeim lögmönnum, sem taka að sér slík mál. Af hverju starfa þeir nánast sem útibú fyrir vátryggingafélögin.

Af hvaða ástæðu vátryggingafélögin fara fram með þessum hætti, þarf ekki að fara í grafgötur um. Um það ætti  hver tjónþoli í líkamstjóna málum að  vera upplýstur. Gerum tryggingar betri í alvörunni, því tryggingar snúast um fólk. 

Lögmenn Árbæ,

Steingrímur Þormóðsson,

Þormóður Skorri Steingrímsson

Fjölnir Vilhjálmsson