Mán - Fös: 8:00 - 16:00
Lokað um helgar
Nethylur 2B,110 Reykjavík
568-1245

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, 10. mars 2015, í málinu nr. E-3376/2013, var staðfest, að B sem varð fyrir alvarlegum líkamsáverkum,  er hann var að tendra skottertu 1. janúar 2013, rétt eftir áramótin, ætti rétt á bótum frá seljanda skottertunnar Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu, vegna slysaáverkanna, en B missti meðal annars sjón á öðru auga.

B gerði kröfur um bætur á hendur tryggingafélagi SL, á grundvelli laga um skaðsemisábyrgð nr. 25/1991, en samkvæmt lögunum eru framleiðendur og seljendur vöru bótaskyldir, ef tjón verður af ágalla á hinni seldu vöru. Verður tjónþoli að sanna ágallan og að orsakasamband sé á milli líkamstjónsins og ágallans. Byggði B á, að skottertan hafi verið haldin ágalla og einnig að hún hafi sprungið og skot úr henni farið af stað með öðrum hætti en við mátti búast. Um það voru vitni að atvikinu hins vegar ekki sammála.

Sjóvá hafnaði bótum. Bar B höfnunina undir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum sem staðfesti höfnun tryggingafélags SL sem er Sjóvá Almennar tryggingar.

Stefndi B þá SL til viðurkenningar á skaðabótaskyldu og Sjóvá Almennum tryggingum til réttargæslu.  Undir rekstri málsins bað B um mat dómkvaddra matsmanna,  meðal annars á því, hvort nægar leiðbeiningar og aðvaranir hefði verið á skottertunni, en það er talinn ágalli á vöru, ef nægar leiðbeiningar eru ekki á vörunni,  varðandi notkun vörunnar, ekki síst ef það fer í bága við opinberar reglur.  Og ef leiða má líkur að því, að notandinn hefði ekki notað vöruna, ef réttar leiðbeiningar hefðu fylgt með henni, þá er slíkt talið nægilegt orsakasamband milli ágallans og líkamstjónsins. 

Niðurstaða matsmanna var meðal annars,  að öryggisfjarlægð skottertunnar hafi skv. þeim flokki sem skottertan var flokkuð í,  skv. reglugerð um skotelda nr. 952/2003,   verið 25 metrar, þe. komast þyrfti í 25 metra fjarlægð frá skottertunni,  áður en hún byrjaði að skjóta. Slík aðvörun var ekki á skottertunni eða fylgdi með henni.   Var nokkuð ljóst eftir þessa matsniðurstöðu,  að hefðu þessar leiðbeiningar verið á skottertunni,  hefði hún ekki selst hér á Stór Reykjavíkursvæðinu eða annars staðar í þéttbýli fyrir áramótin 2012/2013. B lýsti því einnig yfir fyrir dómi, að hann hefði ekki skotið tertunni upp, hefði hann haft vitnsekju um þessa öryggisfjarlægð. Það hafi ekki verið hægt að skjóta tertunni upp þar sem það var gert.  

Dómari málsins hafði sér til aðstoðar verkfræðing með reynslu af sprengiefnum og efnaverkfræðing. Er niðurstaða dómsins einnig að skottertan hefði verið með það marga kveikjuþræði (flókin kveikibúnað),  að ekki hafi mátt selja skottertuna til almennings eða á almennum markaði, einsog gert var. 

Var mat dómenda  að seljandi tertunnari væri skaðabótaskyldur vegna líkamstjóns B á grundvelli laga um skaðsemisábyrgð, en að B hefði einnig sýnt af sér gáleysi við að tendra skottertuna og því var skaðabótaskylda ekki viðurkennd, nema að  að 2/3 hlutum og dæmt að B skyldi bera 1/3 af líkamstjóninu sjálfur. 

B hefur ekki ákveðið hvort hann áfrýji málinu en hann telur þessa niðurstðu dómsins ekki rétta.

Sýnir mál þetta að þeir sem verða fyrir líkamstjóni vegna ágalla á vörum sem seldar eru á almennum markaði eigi að athuga réttarstöðu sína. Ekki verður séð að fólk almennt átti sig á þessu eða sé leiðbeint um það af tryggingafélögum.