Mán - Fös: 8:00 - 16:00
Lokað um helgar
Nethylur 2B,110 Reykjavík
568-1245

FRÉTTIR

Ásudómurinn

Á höfðaði mál á hendur Sjúkratryggingum Íslands, skv. lögum nr. 111/2000, þar sem hún krafðist skaðabóta vegna líkamstjóns sem hún hafði orðið fyrir  og rekja mætti til mistaka í aðgerð á hægri hendi, sem hún hafði gengist undir  á LSH  árið 2011. Máli  Á var vísað frá héraðsdómi á þeirri forsendu að óhjákvæmilegt hefði verið að afstaða Sjúkratryggnga Íslands til bótaskyldu og ákvörðun bóta,  skv. 2. mgr. 15. greinar laga nr. 111/2000, hefðu legið fyrir áður en Á gæti borið málið undir dómstóla.

Hæstiréttur taldi að með vísan til áskilnaðar 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar að ekki fælist ótvírætt í 2. mgr. 15. gr. laga nr. 111/2000 að Sjúkratryggingum Íslands  hafi borið að taka afstöðu til bótaskyldu og fjáræðar bóta áður en krafa um þær yrðu bornar undir dómstóla.


Einnig kemur fram í dómi Hæstaréttar Íslands (mál nr. 760/2015) að málinu yrði ekki vísað frá dómi á þeirri forsendu,  að mat sem Á hafði aflað einhliða væri ekki viðhlítandi sönnunargagn um tjón hennar enda ættu báðir aðila þess kost að afla frekari gagna undir rekstri málsins.

Dómur þessi er merkilegur fyrir margar sakir og sætir nokkurri furðu að dómurinn hafi ekki enn hlotið fræðilega umfjöllun.

Þeir lögmenn sem aðstoða tjónþola sem orðið hafa fyrir læknamistökum og verða samkvæmt 7. grein laga nr. 111/2000 að bera málið fyrst undir Sjúkratryggingar Íslands kannast við, að eftir að þessi tilkynning hefur verið sendi geti þeir ekki á nokkurn hátt gætt hagsmuna tjónþolans eða haft nokkur afskipti af afgreiðslu Sjúklingatrygginga af málinu, fyrr en ákvörðunm um bótaskyldu og fjárhæð bóta liggur fyrir,  oft ekki fyrr en eftir 3 ár eða lengri tíma frá því málið var borið undir SÍ. 

Eru þessi mál þá oft komin í þann farveg,  að erfitt er að fara með þau áfram, þe. fyrir dómstóla og þá gegn Sjúkratryggngum Íslands eða íslenska ríkinu.  Kostar slíkt  nýjar læknisfræðilegar athuganir og matsgerðir sem kosta tjónþolann það mikið (til að hnekkja ákvörðun SÍ),  að hann hefur oftast ekki efni á að gæta réttar síns og fær þá t.d. ekki gjafsókn þar sem tjónþolinn hefur ekki sýnt fram á að tjón hans sé meira en Sjúkratryggingar Íslands hafi ákveðið, en oftar en ekki er til einskis að kæra slík mál til úrskurðarnefndar velferðar mála, fyrir utan þann langa tíma í viðbót, oft  2 ár, sem það tekur. 

Í Ásumálinu varð hún fyrir tjóni sínu í júní 2011 sem hún hafði tilkynnt sjálf í febrúar 2013 til Sjúkratrygginga Íslands. Þrátt fyrir margar ítrekanir til SÍ virtist það svo að þær lægi málið án þess að í því væri nokkuð unnið. 

Er komið var fram í október 2014 gafst Á upp á biðinni og aflaði matsgerðar á tjóni sínu á grundvelli 10. greinar skaðabótalaga sbr. 1. mgr. 5. greinar laga nr. 111/2000 og krafði Sjúkratrggingar Íslands um bætur skv. matsgerðinni. Er engin svör bárust var  mál höfðað á hendur Sjúkratryggingum Íslands, eins og frá greinir í téðum dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 760/2015 frá 4. 12. 2015. Eftir að málinu var vísað heim er það enn til afgreiðslu hjá héraðsdómi og hafa báðir aðilar aflað matsgerðar í málinu og hefur Á þegar fengið verulegar greiðslur inn á líkamstjón sitt.