Mán - Fös: 8:00 - 16:00
Lokað um helgar
Nethylur 2B,110 Reykjavík
568-1245

FRÉTTIR

Hálkuslys

Með dómi Hæstaréttar Íslands, frá 31. 3. 2015, í hæsataréttarmálinu nr. 633/2014 var viðurkennd ábyrgð fasteignareiganda vegna líkamstjóns G, er hún rann í bleytu sem var í anddyri og stiga fasteignar sem hún átti  leið um. 

Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars.: 

„Með vísan til alls þess sem að framan er rakið hefur áfrýjandi fært sönnur á að hálkuvörnum og umbúnaði stigans þar sem hún féll hafi verið ábótavant og stefndu ekki gert viðhlítandi ráðstafanir til að varna því að menn sem leið ættu þar um rynnu á hálum flísunum ef blautt væri í veðri.“ 

Skv. dómnum er lögð rík ábyrgð á fasteignareigendur að huga vel að öryggi gönguleiða, þar sem menn eiga leið um varðandi vinnu sínu eða vegna annarrar þjónustu, sem þar eru veitt, þe.  að gæta þurfi vel að umferðarleiðum og hafa þær hættulausar, sbr. einnig  niðurstöðu dóms Hæstaréttar í  málinu nr. 184/2007, þar sem fram kemur að þangað sem almenningur sækti þjónustu verði að ganga þannig frá umferðarleiðum að ekki sé  um hættu að ræða. 

Sjá einnig í þessu sambandi varðandi ábyrðg fasteignareiganda dóm Hæstaréttar í málinu nr.  635/2006, er tjónþoli, sem  var að koma af heilsugæslu á leið í pótshús féll  í hálku á alfaraleið um fasteign, sem var í eigu Kópavogsbæjar og ríkisins, en meðal annars var rekin heilsugæsla í húsinu. 

Er ljóst af eðlislíkum málum,  þar sem sök hefur ekki verið viðurkennd, heldur talið að um óhappatilvik sé að ræða, að sýna þarf fram á, að hætta af búnaði fasteignar hafi ekki verið ófyrirsjáanleg. Er oft atvikabundið hvað vel slíkt gengur, en ofangreindir þrír hæstaréttardómar staðfesta þó með skýrum hætti ábyrgð fasteignareigenda á öryggi almennra gönguleiða.