Mán - Fös: 8:00 - 16:00
Lokað um helgar
Nethylur 2B,110 Reykjavík
568-1245

FRÉTTIR

Sjúklingatryggingaratburður

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, frá  20. mars 2015, í málinu nr. E-1560/2012 voru S dæmar skaðabætur alls að fjárhæð 5.554.901 kóna auk vaxta og lögmannskostnaðar, vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir vegna læknamistaka. 

S leitaði á heilsugæslu, þann 23. desember 2005, vegna áverka á hendi, sem hann varð fyrir í fótboltaleik deginum áður. Var áverkinn greindur sem tognun og þrýstingsumbúðir látnar á höndina. S leitaði aftur á heilsugæsluna, þann 17. febrúar 2006, og kvartaði yfir verk í hægri þumli og úlnlið og var þá ráðlagt að nota úlnliðs – sinaskeiðaband.  23. ágúst 2006 leitar S aftur á heilsugæsluna og gat þá lítið hreyft höndina við úlnliðinn og var þá sendur á LSH þar sem hann var skoðaður af handarskurðlækni, sem greindi strax bátbeinsbrot í höndinni.  Gekkst S undir aðgerð hjá lækninum  og taldi læknirinn í vottorði sem hann gaf út, að ef brotið hefði verið greint strax, væru allar líkur á að S hefði náð fullum bata.

Málið fór fyrir Sjúkratryggingar Íslands, skv. lögum nr. 111/2000, þann 30. 5. 2007. Viðurkenndu Sjúkratryggingar Íslands í október 2007 að um væri að ræða sjúklingatryggingaratburð, skv. 2. grein laga nr. 111/2000 og að líkamstjón S væri bótaskylt.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 111/2000 skulu bætur fyrir sjúklingatryggingaratburð vera skaðabætur,  skv. skaðabótalögum upp að ákveðnu hámarki. Var líkamstjón S metið til 8 miskastiga og 8% varanlegrar öroroku og skaðbætur alls kr. 6.741.219.  Fékk  S fullar bætur frá sjúkratryggingum Íslands,  skv. 2. mgr. 5. greinar laga nr. 111/2000 eða kr. 6.177.635 sem var þá hámark bóta skv. lögum nr. 111/2000.

S taldi að líkamstjón sitt hafi verið rangt metið hjá Sjúkratryggingum Íslands og leitaði til Boga Jónssonar bæklunarlæknis og Björns Daníelssonar, sérfræðings í líkamstjónarétti. Mátu þeir líkamstjón S til 15 miskastiga eða töluvert hærra en gert var hjá Sjúkratryggingum Íslands.

Samkvæmt 7. gr. laga nr. 111/2000 er lögbundið fyrir þann, sem verður fyrir líkamstjóni vegna læknisþjónustu lækna,  sem starfa hjá ríkinu til dæmis á opinberum heilsugæslum, að sækja bætur fyrst til Sjúkratrygginga Íslands, en þar eru einungis greiddar bætur upp að ákveðnu bótaþaki,  skv. 2. mgr. 5. greinar laga nr. 111/2000.  Ef viðkomandi tjónþoli telur sig hafa orðið fyrir frekari líkamstjóni,  verður hann að sækja viðbótarbæturnar á hendur íslenska ríkinu. Er þetta fyrirkomulag verulega erfitt fyrir viðkomandi tjónþola og kostnaðarsamt. 

Samkvæmt lögum nr. 111/2000 þarf sá sem bíður líkamstjón vegna læknisþjónustu ekki að sanna að um sök sé að ræða, þe. að líkamstjóninu hafi verið valdið af gáleysi eða vegna mistaka læknis, heldur einungis, að sýna fram á,  að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður,  sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði (2. tl. 2. gr. laga nr. 111/2000). Eða tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni (4. tl. 2. gr. laga nr. 111/2000).

S stefndi sem sagt ísl. ríkinu vegna skaðabótaábyrgðar heilsugæslunnar á grundvelli 15 stiga miska og 15% varanlegrar örorku, vegna líkamsáverkans sem S taldi að íslenska ríkið bæri skaðabótaábyrgð á, þar sem um bótaskyld mistök hafi verið að ræða. Héraðsdómari ásamt tveimur læknum komst að þeirri niðurstöðu að um sök væri að ræða, að því er virðist aðallega af því,  að um áverki S hafi verið ranglega greindur sem sinaskeiðabólga. Síðan segir í dómnum:

„Þá er það álit hinna sérfróðu meðdómsmanna að ef skoðunar- og meðferðarferli hefði verið nægilega vandað og rétt, hefði það að öllum líkindum leitt til þess að bátsbeinsbrot í hægri hendi stefnanda hefði verið greint við fyrstu skoðun 23. desember 2005 eða þá í endurkomu 17. febrúar 2006.“

Samkvæmt þessu dómi er því ekki verulegur munur á bótaskyldu skv. 1. töluliðar 2. gr. laga  nr. 111/2000 og sakarreglunni og þeirri sérfræðiábyrgð sem taldin er gilda um lækna. 

Í niðurstöðu dómsins segir einnig: 

„Samkvæmt áliti hinna sérfróðu meðdómsmanna er það almennt viðurkennt vinnuferli lækna við skoðun eftir slys, að gerð sé vinnuverkagreining m.t.t. þeira upplýsinga sem fram koma í viðtali og þeirrar skoðunar sem upphaflega fer fram. Leiki vafi á áverkagreiningu eftir slys þarf, að mati hinna sérfróðu meðdómsmanna að fylgja hinum slasaða eftir með endurkomu. Sé við endurkomu lýst langvinnum einkennum eftir slys og óeðlilegu bataferli, þarf að fara fram endurmat á upphaflegu áverkagreiningunni, þe. að sannreyna hvort um rétta áverkagreiningu hafi verið að ræða í byrjun í ljósi bataferils og gangs mála á þeim tíma sem liðinn er frá fyrstu skoðun.“

Er ljóst að dómurinn telur að þessum verklagsreglum hafi ekki verið fylgt og því hafi S ekki fengið, eins góða læknisþjónustu og honum bar. Ef þessum verklagsreglum hefði verið fylgt, hefði S verið greindur með þann áverka, sem hann fékk í slysinu og orðið jafngóður af áverkanum.  Í þessu liggi sökin. 

Svo virðist sem þetta sé fyrsti dómurinn sem gengið hafi hér á landi, þar sem tjónþoli fær fyrst bætur frá Sjúkratryggingum Íslands skv. lögum nr. 111/2000 og síðan frá ísl. ríkinu á grundvelli sakarábyrgðar. Er dómurinn birtur á vef Héraðsdóms Reykjavíkur. 

Málið flutti fyrir hönd S Axel Ingi Magnússon, hdl. hjá Lögmönnum Árbæ, sem sitt fyrst mál eftir að hafa fengið lögmannsréttindi og gerði það greinilega vel.